Starfsstöðvar
Höfuðstöðvar og aðalskrifstofa Mjólkursamsölunnar ehf. eru í Reykjavík. Fyrirtækið heldur einnig úti starfsstöðvum á Akureyri, Selfossi, Búðardal og Egilsstöðum.
MS Reykjavík
Höfuðstöðvar og aðalskrifstofa Mjólkursamsölunnar ehf. eru á Bitruhálsi 1 í Reykjavík og þar starfa um 170 starfsmenn. Á Bitruhálsinum er aðalvöruhús fyrirtækisins sem geymir birgðir af öllum framleiðsluvörum MS, þar með taldar allar tegundir ferskvöru, osta og smjörvöru, auk geymsluþolinna vara. Þar fer fram umfangsmikil vörutiltekt og þaðan er stöðug dreifing á mjólkurvörum um höfuðborgarsvæðið og stóran hluta landsins. Á Bitruhálsinum fer jafnframt fram öll bita- og sneiðapökkun á osti sem framleiddur er á öðrum framleiðslustöðvum MS.
MS Selfossi
Stærsta einstaka afurðastöð MS er á Selfossi og er hún til húsa að Austurvegi 65. Alls starfa um 110 starfsmenn á Selfossi og eru helstu verkefni þar á bæ mjólkurpökkun, framleiðsla á skyri og margvíslegum sýrðum vörum, auk fjölbreyttra G-vara og mjólkurdufts. Mjólkursöfnunarsvæði stöðvarinnar nær frá Snæfellsnesi í vestri að Skeiðarársandi í austri og árlega tekur hún við um 75 milljónum lítra af mjólk frá um 290 bændum, sem er um helmingur allrar mjólkurframleiðslu í landinu. Á Selfossi er starfrækt viðhaldsdeild, rannsóknarstofa og mjólkureftirlit og þá er flutningastarfsemi mikilvægur þáttur í rekstri stöðvarinnar, allt frá söfnun mjólkur til flutninga á fullunninni vöru til Reykjavíkur og vörudreifingar á Suðurlandi.
MS Akureyri
Starfsstöð Mjólkursamsölunnar á Akureyri er til húsa að Súluvegi 1 og þar starfa um 80 manns við fjölbreytt störf í framleiðslu, dreifingu og viðhaldi á búnaði og tækjum, auk þess sem þar er starfrækt sérstök rannsóknarstofa og mjólkureftirlit. MS Akureyri tekur á móti mjólk frá mjólkurframleiðendum á Eyjafjarðarsvæðinu og í S-Þingeyjarsýslu og þar fer meðal annars fram mjólkurátöppun, smjörgerð, fjölbreytt ostagerð, auk framleiðsla á ýmsum öðrum mjólkurvörum á borð við súrmjólk, grjónagraut og ostakökur.
MS Búðardal
Hjá MS Búðardal starfa rúmlega 20 manns og er fyrirtækið einn stærsti vinnustaður á svæðinu. Starfsstöðin stendur við Brekkuhvamm 15 og er þar tekið á móti mjólk frá bændum í Dalasýslu og Barðastrandar- og Ísafjarðarsýslum á Vestfjörðum. Í Búðardal eru allir mygluostarnir okkar framleiddir, auk Salatsost og ýmissa sérosta og þar fer einnig fram framleiðsla á LGG+ og Benecol. Framleiðsluvörur stöðvarinnar hafa hlotið ótal viðurkenningar, innanlands og erlendis og rétt eins og á öðrum starfsstöðvum MS er þar starfrækt rannsóknarstofa og séð til þess að stöðin uppfylli ýtrustu gæðakröfur í öllu framleiðsluferlinu.
MS Egilsstöðum
MS Egilsstöðum er til húsa að Hamragerði 12 og þar starfa um 15 manns. Á hverju ári tekur stöðin á móti rúmlega 7 milljónum ltr. af mjólk frá 36 bændum og sinnir dreifingu frá Vopnafirði að Jökulsárlóni auk þess að annast flutninga milli Egilsstaða og Akureyrar. Helstu framleiðsluvörur á Egilsstöðum eru kryddsmjör og rifnir ostar.
Mjólkursamlag KS
Mjólkursamlag KS er til húsa að Skagfirðingabraut 51 á Sauðárkróki og þar starfa um 35 manns. KS á 20% í Mjólkursamsölunni og þar eru framleiddar nokkrar vörur sem MS sér síðan um sölu og dreifingu á. Meðal vara sem framleiddar eru hjá KS eru skagfirsku gæðasostarnir Goðdalir, ferskur mozzarellaostur og burrata, rifnir ostar og fl.
Pantanir og dreifing
Sölufulltrúar okkar taka á móti pöntunum frá viðskiptavinum í síma 450-1111, í gegnum pantanavefinn panta.ms.is eða með tölvupósti á sala@ms.is. Opnunartíma söludeildar og vöruafgreiðslu er að finna neðst á síðunni og hafa viðskiptavinir val um að sækja vörurnar eða fá þær sendar.