Brot úr mjólkursögu
Mjólkursamsalan í núverandi mynd hefur starfað frá 2007 en á tíunda áratugi síðustu aldar hófst skipulögð hagræðing í mjólkuriðnaði þegar stjórnvöld ákváðu að lækka þyrfti kostnað við vinnslu á mjólk. Sameinaðist rúmur tugur félaga í mjólkuriðnaði í færri einingar næsta áratuginn. Mjólkurbú Flóamanna sameinaðist Mjólkursamsölunni í Reykjavík árið 2005 undir nafninu MS og áður höfðu Mjólkursamlög KEA og Húsavíkur runnið saman við Grana, einkahlutafélag í eigu bænda, undir nafni Norðurmjólkur. Þá var Mjólkursamlag Ísfirðinga selt til MS árið 2006 og runnu þessar sameinuðu mjólkurvinnslur síðar saman og mynduðu Mjólkursamsöluna ásamt Osta og smjörsölunni árið 2007. Elsta fyrirtækið í sameinaðu félagi Mjólkursamsölunnar er Mjólkursamlag KEA, sem var stofnað á sérstökum fulltrúafundi Kaupfélagsins 4. september 1927, sem telst vera stofndagur MS.
1900
Fram til 1900 hafði mjólkurframleiðsla að mestu farið fram á heimilum til sveita. Rjómabúin sem spruttu upp víða um land í kringum aldamótin voru fyrsti vísir að mjólkuriðnaði í nútímaskilningi. Rjómabúin höfðu öll útflutning á smjöri að markmiði. Þetta voru lítil bú sem áttu stutt blómaskeið og flest lögðust þau af eftir 1918.
1927
Árið 1927 voru sett lög á Alþingi sem heimiluðu að ríkissjóður greiddi fjórðung stofnkostnaðar mjólkurbúa. Í kjölfar lagasetningarinnar voru stofnuð mjólkurbú víða um land, þau fyrstu strax árið 1927. Árið 1928 tók Mjólkursamlag KEA til starfa og Mjólkurbú Flóamanna hóf starfsemi sína árið 1929.
1935
Mjólkursamsalan í Reykjavík var stofnuð 1935 og var henni ætlað í krafti stærðar að dreifa mjólk á hagkvæman hátt en jafnframt að auka gæði mjólkurvara og bæta þjónustu við neytendur. Frá upphafi var mikil áhersla lögð á hreinlæti og nákvæmni við meðferð mjólkurinnar og var rannsóknarstofa MS stofnuð sama ár. Mjólkursamsalan seldi mjólk auk þess sem hún bjó til smjör, rjóma og skyr. Árið 1937 var svo Mjólkursamlagið Ísafirði stofnað.
1940
Þegar skyrgerð færðist af heimilum inn í mjólkurbú tók framleiðslan miklum breytingum. Upphaflega voru notaðar svipaðar aðferðir og í heimahúsum en fljótlega voru teknar í notkun stórvirkar vélar til að flýta fyrir síuninni, sem er tímafrekasti hluti framleiðslunnar. Upp úr 1940 voru teknar í notkun snúningstromlur fyrir skyr sem skildu mysuna frá.
1950
Sérhæfðar mjólkurbúðir voru víða í Reykjavík frá árinu 1910 en þær voru stofnaðar vegna krafna um aukið hreinlæti við meðferð mjólkurafurða. MS opnaði mjólkurbúð á Laugavegi árið 1950. Vöruúrval mjólkurbúðanna var fremur takmarkað en það samanstóð af mjólk, rjóma, skyri og smjöri.
1958
Osta- og smjörsalan var stofnuð 1958 og markaði stofnun hennar ákveðin tímamót. Þar var um að ræða fyrirtæki í eigu allra mjólkursamlaganna í landinu og sinnti það mikilvægu brautryðjandastarfi í allri vöruþróun og markaðsmálum osta. Árið 1969 var komið á fót pökkunarstöð fyrir ost og skipti sú nýjung sköpum. Í framhaldi jókst mjög fjölbreytni í ostum og neysla færðist í vöxt.
1959
Mikil bylting varð í pökkun mjólkur þegar mjólkurhyrnur leystu gömlu mjólkurflöskurnar smám saman af hólmi. Með tilkomu nýrrar tækni var jafnframt hægt að hreinsa mjólkina. Árið 1959 var Mjólkursamlagið Egilsstöðum stofnað og nokkrum árum síðar eða 1964 var Mjólkursamlagið í Búðardal stofnsett.
1971
Gríðarlegar framfarir urðu í framleiðslu mjólkurvara í kringum 1970. Fyrsta bragðbætta jógúrtin kom á markað 1971 og ári síðar hófst framleiðsla á Kókómjólk. Á næstu árum bættust fjölmargar bragðbættar mjólkurvörur í hópinn.
1973
Mjólkurflutningar á tankbílum hófust 1973 en fram að því hafði allur flutningur á mjólk farið fram með mjólkurbrúsum. Með tilkomu tankbíla varð auðveldara að sækja mjólk og jafnframt jukust gæði mjólkurinnar. Á þessum tíma var mjólkurframleiðsla dreifð mjög víða um land. Afurðastöðvar voru 17 talsins og kúabú um 2.400
1985
Mjólkurframleiðsla á Íslandi jókst allt fram undir 1980 en þá voru mjólkursamlög og afurðastöðvar starfandi í öllum landshlutum. Árið 1978 var mjólkurframleiðslan um 120 milljónir lítra en hafði numið ríflega 42 milljónum lítra árið 1928. Til að sporna við offramleiðslu var komið á kvótakerfi með nýjum búvörulögum 1985 og tryggði ríkisvaldið fullt verð til bænda fyrir ákveðið magn.
2005
Framleiðsluleyfi á skyri selt til Danmerkur en um var að ræða fyrsta sérleyfissamning MS erlendis. Á næstu árum bættust fleiri lönd í hópinn og ljóst var að erlendir neytendur tóku þessari séríslensku afurð vel. Íslenska skyrið fékk síðar nafnið Ísey skyr og er fáanlegt víða um heim.
2007
Um og upp úr árinu 2007 hófust sameiningar mjólkurbúa og í kjölfarið fylgdi mikil endurskipulagning á framleiðslu MS. Þessu fylgdi bæði hagræðing og aukin sérhæfing búanna. Í Búðardal er nú áhersla á framleiðslu mygluosta, á Akureyri eru fastir ostar framleiddir, á Egilsstöðum er mozzarella framleiðsla og á Selfossi er aðaláhersla á ferskvöru. Hjá Mjólkursamlagi KS eru framleiddir ostar og viðbit.
2022
Vörur MS eru framleiddar á sex stöðum víðs vegar um landið og er fyrirtækið mikilvæg samfélagsstoð í dreifðari byggðum. Vöruframboðið ákaflega fjölbreytt en alls framleiðir fyrirtækið fjölda vörutegunda í ostum, viðbiti og ferskvöru. Vöruþróun er mikilvægur þáttur í starfsemi MS og er lagt upp með að neytendur hafi mikið val. Fyrirtækið leggur mikla áherslu á hagkvæmni í framleiðslu og betri hráefnisnýtingu og skipuleggur jafnframt stækkanir á aðstöðu sinni á Selfossi og Akureyri. Fjöldi kúabúa er um 520 og voru 151 milljónir lítra af mjólk framleidd árið 2021.