Beint í efni
En

Mjólkin gefur styrk

Á hverju ári styður Mjólkursamsalan við málefni tengd íþróttastarfi, góðgerðar- og heilbrigðismálum, mennta- og menningarmálum og er það okkar von að styrkirnir nýtist sem best í hverju tilfelli fyrir sig.

Mjólkurbikarinn er eitt af mörgum samfélagsverkefnum Mjólkursamsölunnar en fyrirtækið hefur sterkar rætur í íslensku samfélagi og hefur mikla tengingu við íþróttahreyfinguna. Bikarkeppni KSÍ hét Mjólkurbikarinn um árabil; eflaust muna mörg okkar vel eftir því, og var það því einkar ánægjulegt þegar samstarf MS og KSÍ var endurnýjað árið 2018. Markmið okkar með stuðningi við fótboltann er meðal annars að auka vitund um mjólk og hollustu hennar og tengja fyrirtækið við jákvætt og uppbyggjandi íþróttastarf í landinu. Við erum gríðarlega stolt af þessu viðamikla verkefni sem teygir anga sína um land allt og hlökkum til að krýna nýja Mjólkurbikarmeistara í lok hvers sumars.

Slysavarnafélagið Landsbjörg hefur til margra ára notið stuðnings Mjólkursamsölunnar í formi vörugjafa þegar sjálfboðaliðar björgunarsveita um land allt hafa sinnt tímafrekum útköllum, hálendisvöktum og fjáröflunum. Árið 2021 fór MS í sérstakt átak með Landsbjörg þar sem ein hlið á mjólkurfernum MS skartaði tímabundið myndum og textum um mikilvægi björgunarsveitanna og var fólk hvatt til að kynna sér starfsemi félagsins og gerast Bakverðir björgunarsveitanna.

Góðgerðarfélög og hjálparstofnanir. Mjólkursamsalan hefur til margra ára lagt hjálparsamtökum lið í aðdraganda jólahátíðarinnar og úthlutar fyrir hver jól rúmlega 2 milljónum til nokkurra samtaka í formi vöruinneigna hjá fyrirtækinu. Fyrir jólahátíðina 2022 hlutu sjö félög samtals 2,5 milljónir í styrk og voru það eftirfarandi félgög: Fjölskylduhjálp Íslands, Mæðrastyrksnefnd Reykjavíkur, Mæðrastyrksnefnd Kópavogs, Mæðrastyrksnefnd Hafnarfjarðar, Mæðrastyrksnefnd Akureyrar, Hjálparstarf kirkjunnar og Sjóðurinn góði í Árnessýslu. Með þessum styrkjum vill Mjólkursamsalan leggja sitt af mörkum til að styðja við bakið á þeim hópi einstaklinga sem leitar aðstoðar í formi matarúthlutunar frá félögunum fyrir jól.

Góðgerðarfernur MS eru eitt af stærri verkefnum Mjólkursamsölunnar en á árunum 2014-2017 stóð MS fyrir átakinu Mjólkin gefur styrk með svokölluðum góðgerðarfernum, en þá skipti D-vítamínbætt léttmjólk tímabundið um útlit og rann hluti af andvirði hverrar fernu til kaupa á tækjabúnaði fyrir Landspítalann. Vel menntað heilbrigðisstarfsfólk þarf góðan tækjabúnað til að ná besta mögulega árangri við að meðhöndla sjúkdóma og lækna fólk, og lögðum við þeim lið með stolti. Á þessum fjórum árum veitti MS spítalanum styrki MS fyrir samtals 60 milljónir og var fjárhæðin nýtt til kaupa á eftirfarandi tækjabúnaði:

  • CUSA-skurðtæki og barkaspeglunartæki 2017
  • Tækjabúnaður sem auðveldar greiningu á brjóstakrabbameini 2016
  • Skurðarborð og lyftari á bæklunarskurðdeild 2015
  • Beinþéttnimælir 2014

Samfélagsverkefni Mjólkursamsölunnar eru mörg til viðbótar við þessi sem nefnd hafa verið hér fyrir ofan og til að nefna nokkur sem njóta reglulegra styrkja frá okkur eru íþróttafélög um land allt, Íþróttasamband fatlaðra, Kokkalandslandið, SÁÁ, söguskilti í Dalabyggð, Ólympíuhlaup ÍSÍ, Frú Ragnheiður – skaðaminnkunarverkefni, Janus heilsuefling, átaksverkefnið Vertu snjall undir stýri, heimsóknir grænlenskra grunnskólabarna til Íslands, teiknisamkeppni 4. bekkinga og Góðgerðarpizza Dominos.